Bæjarlind 7 - 9

Markmið hönnunarinnar er að skapa einstaka og metnaðarfulla umgjörð með sterka ímynd og vera um leið áberandi kennileiti inn í hið nýja hverfi.

Umhverfis svæðið hafa metnaðarfullar byggingar er hafa sérstöðu verið byggðar í gegnum árin, sérstaklega í Smárahverfi. Þær hafa átt sinn þátt í að skapa nýtt hjarta höfuðborgarsvæðisins.

Teljum við að hinar nýju byggingar við Bæjarlindina muni sóma sér vel í tengslum við þær, ásamt því að stuðla að áframhaldandi metnaði í byggingarlist á svæðinu.

Húsin eru brotin upp í einingar sem gefa þeim sérstakt yfirbragð og gefa tóninn er kemur að þéttleika byggðar samkvæmt hugmyndum að skipulagi svæðisins. Fjölbreytilegar einingar innan bygginganna verða eins og sjálfstæðir húsahlutar innan byggingarheildarinnar.

Byggingarnar eru í raun fjölbreytt flóra eininga sem fléttast saman og skapa þannig heilstæðan byggingarmassa.

Ásýnd húsanna verður þannig að leiktjaldi sem iðar af mannlífi. Samspil forma, efnis, ljóss og skugga gefur þeim fjölbreytilegt og einstakt yfirbragð sem mun gleðja augað í Glaðheimum.

Íbúðir eru bjartar og rúmgóðar og eru af ýmsum stærðum og gerðum. Flestar hafa þær suðursvalir. Með víxlun massa og fléttusamsetningu svala skapast gott næði á svölum fyrir íbúa.

Í kjallara er bifreiðageymsla ásamt annarri sameign og geymslum íbúa. Þar eru einnig sorpgeymslur þar sem aðstaða er fyrir flokkun heimilissorps.

Komið er upp frá kjallara um lyftuhús viðkomandi stigagangs. Húsin eru steinsteypt og klædd veðurkápu úr viðhaldsfríu efni.